Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands lækkaði í gær stýrivexti um 0,5 prósentustig niður í 2,25% til þess að bregðast við versnandi horfum í efnahagslífinu í kjölfar útbreiðslu kórónuveirunnar, COVID-19. Þar að auki færði bankinn meðaltalsbindiskyldu innlánastofnana niður í 0% úr 1% á meðan föst bindiskylda verður áfram 1% með það markmiði að styrkja lausafjárstöðu bankanna, en fram kom í máli Ásgeirs Jónssonar seðlabankastjóra að um 40 milljarðar myndu að einhverju leyti losna við þessa aðgerð.

Vaxtaákvörðunin í gær var sú fyrsta frá hruni sem ekki er birt á fyrirframákveðnum vaxtaákvörðunardegi sem átti að vera á miðvikudaginn í næstu viku. Ákvörðunin um að flýta fundinum kom í kjölfar þess að á þriðjudag kynnti ríkisstjórnin aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum vegna kórónuveirunnar.

Aðgerðirnar sem eru í sjö liðum eru raun tvískiptar. Aðgerðir eins og að veita fyrirtækjum í rekstrarerfiðleikum fresti til að standa skil á opinberum gjöldum, tímabundin niðurfelling gistináttaskatts og flutningur innistæðna ÍL-sjóðs úr Seðlabankanum á innlánsreikninga bankanna, sem hafa þó legið fyrir í töluverðan tíma, munu að öllum líkindum hafa áhrif mjög fljótt en hve mikil áhrifin verða er ósvarað. Að sama skapi munu aðgerðir eins og markaðsátak fyrir Ísland, ráðstafanir til að örva einkaneyslu og aukinn kraftur í opinberar framkvæmdir koma til framkvæmda með það að markmiði að veita efnahagslífinu viðspyrnu þegar það versta er gengið yfir.

Lítil virkni við veiru

Erna Björg Sverrisdóttir, aðalhagfræðingur Arion banka, segir að þrátt fyrir að aðgerðir ríkisstjórnarinnar séu jákvæðar fréttir, þá telur hún það áhyggjuefni hve stutt þær virðast komnar.

„Það virðist nánast ekkert vera fast í hendi og að verið sé að velta upp fullt af hugmyndum um aðgerðir sem hægt er að ráðast í. Að mínu mati er helsta áhyggjuefnið hvað þetta er komið stutt á leið og maður hefur áhyggjur af því að þetta komi of seint þar sem stjórnsýslan hleypur ekkert sérstaklega hratt. Á hverjum degi eru að koma sífellt verri fréttir úr ferðaþjónustunni sem eru farnar að hafa áhrif á aðrar greinar hagkerfisins. Það þarf aðgerðir strax sem munu hafa sýnileg áhrif á fyrirtækin í landinu þar sem það þarf að létta undir með þeim.

Hvað varðar vaxtalækkunina þá var í raun viðbúið að Seðlabankinn myndi lækka vexti og í takt við það sem aðrir seðlabankar í heiminum hafa verið að gera. Að mínu mati þá er virkni vaxtalækkunarinnar til að bregðast við kórónuveirunni ekkert sérstaklega mikil. Vaxtalækkun er aðallega til að sýna að Seðlabankinn sé tilbúinn að beita sínum stýritækjum til að styðja við hagkerfið.

Ég ætla ekki að segja að vaxtalækkunin hafi engin áhrif en við höfum verið að sjá vaxtaálögur á fyrirtæki hækka og vaxtalækkanir hafa ekki verið að skila sér sérstaklega vel til fyrirtækja heldur frekar verið að styðja við eignamarkaði. Þær hafa hins vegar ekki verið að skila sér í vexti atvinnuvegafjárfestingar þar sem þær þurfa einmitt að hafa áhrif.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út í dag. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .