Skiptum á þrotabúi verktakafyrirtækisins NN verktaka ehf. er lokið og samkvæmt tilkynningu til Lögbirtingablaðsins námu lýstar kröfur í búið 93,4 milljónum króna og fundust engar eignir í búinu til að greiða þessar kröfur. Félagið hét áður Nesvélar ehf. og var stofnað í apríl 2001 en skipti um nafn árið 2010. Framkvæmdastjóri fyrirtækisins var Markús Guðjónsson og samkvæmt síðasta opinbera ársreikningi, sem var fyrir árið 2008, var hann eini eigandi þess.

Hann tengist þó enn ásamt fjölskyldu sinni nokkrum öðrum fyrirtækjum í Mosfellsbæ. Samkvæmt ársreikningi Ásbergs ehf. fyrir árið 2007 á hann 10% hlut í því fyrirtæki, en það er verktakafyrirtæki með skrúðgarðayrkju sem sérsvið. Þá á hann, einnig samkvæmt ársreikningi fyrir árið 2008, 50% hlut í félaginu N 13 ehf. Það félag leigir út fasteignir hér á landi og erlendis.