Skiptum á fimm gjaldþrota félögum sem voru í eigu stjórnenda Sparisjóðabankans, síðar Icebank, er lokið. Félögin héldu um hlutabréf starfsmannanna. Félögin sem um ræðir heita  Lagos, G-tveir, Saltsalan, Óseki og HDH Invest. Ekkert fékkst upp í kröfur í búin.

Stærsta gjaldþrotið var bú HDH Invest, en lýstar kröfur í búið námu alls 1,4 milljarði. Félagið var í eigu Agnars Hanssonar, fyrrverandi forstjóra Icebank og núverandi forstöðumanns Arctica Finance. DV fjallaði nýverið um lán til félaga í eigu stjórnenda bankans og kom fram að heildarlán til tólf hlutafélaga, þar af átta í eigu stjórnenda, hafi verið rúmlega 1.400 milljóna kúlulán frá Sparisjóði Keflavíkur til hlutabréfakaupa í Sparisjóðabankanum. Þar af nam lán til félags Agnars rúmlega 70 milljónum.

Hin félögin fjögur, sem skiptum er nú lokið á, voru í eigu Hafdísar Karlsdóttur, Gunnars Svavarssonar, Ólafs Styrmis Gylfasonar og Önnu Þ. Reynisdóttur.

Lýstar kröfur í bú Hafdísar (G-tveir ehf.) námu um 547 milljónum krónar, í bú Gunnars (Lagos ehf.) námu þær um 782 milljónum, í bú Önnu Þ. (Saltsalan ehf.) voru kröfurnar rúmlega hálfur milljarður og í bú Ólafs Styrmis námu þær um 300 milljónum. Eins og áður segir fundust engar eignir í búunum.