Ekkert fékkst upp í lýstar kröfur í þrotabú Ingólfs Helgasonar, fyrrverandi forstjóra Kaupþings á Íslandi en kröfurnar námu um  640 milljónum króna. Þetta kemur fram í Lögbirtingablaðinu.

Ingólfur var úrskurðaður gjaldþrota þann 15. mars síðastliðinn. Engar eignir fundust í búinu og lauk skiptum í því þann 20. júní án þess að greiðsla fengist upp í lýstar kröfur, auk áfallinna vaxta og kostnaðar eftir úrskurðardag gjaldþrotaskipta.

Viðskiptablaðið greindi frá því í júní 2015 að Ingólfur hefði verið dæmdur til fjögurra og hálfs árs fangelsisvistar í markaðsmisnotkunarmáli Kaupþings sem beindist gegn níu fyrrverandi starfsmönnum bankans. Í málinu var hinum ákærðu gefið að sök að hafa stundað umfangsmikil viðskipti með hlutabréf í bankanum í þeim tilgangi að stýra verðmyndun á hlutabréfum bankans.