Engar eignir fundust í tæplega 2,8 milljóna króna kröfur þrotabús ísbúðarinnar Ísland. Ísbúðin var lýst gjaldþrota 21. mars síðastliðinn og lauk skiptum 19. júní síðastliðinn, að því er fram kemur í Lögbirtingablaðinu.

Ísbúðin var til húsa í Suðurveri í hlíðahverfi í Reykjavík og sérhæfði hún sig í náttúrulegum ís og seldi m.a. ís sem framleiddur var á bænum Holtseli í Eyjafjarðarsveit. Meðal bragðtegunda sem í boði voru má nefna bjórís, hundasúruís og lakkrís ís og þá var hægt að kaupa dúkasigtað skyr í versluninni að viðbættum venjulegum kúluís.

Fram kom í umfjöllun vb.is í apríl að Hlédís Sveinsdóttir stofnaði ísbúðina árið 2010 og rak hún búðina um skeið áður en hún seldi hlut sinn. Fram kemur í ársreikningi að eigendaskipti höfðu átt sér stað árið 2011. Nýr eigandi var félagið Hressingarskálans ehf.