Að sögn Björns Ragnarssonar, framkvæmdastjóra bílaleigunnar Avis, hefur lítið sem ekkert gengið hjá bílaleigunni að selja bíla þetta haustið.

Björn benti á að fjármögnun bíla hjá þeim væri tvíþætt. Annars vegar væru þeir með rekstraleigubíla í töluverðu magni sem er skilað til umboðanna eftir 15 mánaða notkun þannig að þeir nýtist tvö sumur. Bílunum er þá skilað í lok seinna ársins. Björn sagði að þeir hefðu náð að skila töluvert af sínum flota til umboðanna. Síðan er alltaf hluti sem er í eigu bílaleiganna sjálfra og með aðra fjármögnun. ,,Það hefur ekki gengið að selja í haust. Svo erum við að berjast við það sama að við höfum fjármagnað megnið af þessum bílakaupum í erlendum lánum og þau standa illa því bílverð hefur ekki fylgt gengisfalli krónunnar. Því hefur miklu magni af bílum verið lagt og er ætlunin að keyra á sömu bílunum næsta sumar.

Þessi staða heggur vissulega að eiginfjárstöðu bílaleigannna en það er dálítið misjafnt hvernig þau hafa gert það í sínum reikningum. Sumar bílaleigur eignfæra fjármögnunarleigubíla og afskrifað þá. Aðrar hafa gert það þannig að leigugreiðslur eru gjaldfærðar þannig að það kemur ekki inn í reksturinn fyrr en bíllinn er seldur og þá kemur fram tap eða hagnaður af bílunum.

,,Það sem er að höggva í er að það er gríðarleg greiðslubyrði af þessum lánum og mikil vaxtabyrði sem heggur í. Veik króna í sumar skilaði okkur góðu sumri en hún er orðin mun veikari núna en í sumar. Bílaleigur hafa að mestu verið að verðleggja sig í erlendri mynt og við munum halda því áfram. Lánskjör hafa hins vegar snarversnað.

Ég geri ráð fyrir að við finnum leið til þess að vera með þann flota sem við erum með. Hér er nauðsynlegt fyrir þjóðfélagið að fá mikið inn af ferðamönnum fyrir næsta sumar til þess að auka okkar gjaldeyristekjur. Tæplega helmingur ferðamanna sem kemur til landsins á eigin vegum tekur sér bílaleigubíl og framboð bílaleigubíla nam um það bil 6.000 bílum í sumar.”

Að sögn Björns hafa tekjurnar oft verið það góðar á sumrin að það hefur verið í lagi að láta einhverja bíla standa óhreyfða yfir veturinn. Breytt landslag með hærri vöxtum og meiri afföllum breytir þessu mikið. Því megi gera ráð fyrir að það verði samdráttur í framboði bílaleigubíla næsta sumar.