Íslenskur kaffimarkaður hefur tekið stórtækum breytingum á síðustu áratugum og með auknum kröfum Íslendinga hefur neyslan breyst mikið. Tölur sýna að innflutningur á kaffi hefur aukist jafnt og þétt frá aldamótum og að sögn þeirra sem starfa á markaðnum verður samkeppnin sífellt harðari samhliða auknum kröfum neytenda. Segja má að kaffineysla endurspegli á einhvern hátt mismunandi tíma á Íslandi, allt frá því er Árni Magnússon lét smíða fyrir sig kílóaþunga silfurkaffikönnu árið 1721 eða þegar Norðlendingar neituðu að drekka nokkuð annað en Bragakaffi og til dagsins í dag þar sem kaffi er framreitt af sérmenntuðu starfsfólki á kaffihúsum landsins.

Ekkert gott kaffi kemur af Robusta

Gögn Heimsbankans sýna að meðal Arabica kaffiverð á hverjum ársfjórðungi hækkaði nokkuð árið 2016, eða úr 3,31 dollara á kíló í 3,86 en verðið tók þó að lækka aftur í byrjun árs. Sömu sögu má segja um verð á hrákaffi framleitt úr Robusta- plöntunni en þar hækkaði kílóaverðið úr 1,79 dollurum í 2,27 dollara á sama tímabili. Verðið á Robusta-kaffi hélt hins vegar áfram að hækka í byrjun ársins og var að meðaltali 2,39 dollarar í janúar.

© vb.is (vb.is)

Aðalheiður Héðinsdóttir, stofnandi Kaffitárs, er afdráttarlaus í skoðun sinni þegar hún er spurð út í muninn á Arabica- og Robusta-kaffi. „Allt gott kaffi kemur frá Arabicabauninni og það er ekkert gott kaffi sem kemur af Robusta, alveg sama hvað hver segir. Ítalirnir halda því gjarnan fram að þú getir ekki útbúið expressó nema með Robusta en það er bara bull og enginn kaffisérfræðingur myndi skrifa upp á slíkt. Það er þó ekki þar með sagt að allt Arabicakaffi sé gott kaffi.“

Hún bætir við að hún viti ekki til þess að nokkur íslenskur kaffiframleiðandi sé að flytja inn Robusta baunir, en mikið af kaffi sem brennt er erlendis og flutt inn í neytendapakkningum innihaldi þó Robusta.

Mikil orka í Kruðerí

Kaffitár var stofnað af Aðalheiði og manni hennar, Eiríki Hilmarssyni, árið 1990 og er fyrirtækið eignarhaldsfélag í þeirra eigu. Árið 2013 stofnaði Kaffitár einnig Kruðerí Kaffitárs í Kópavogi. Kruðerí Kaffitárs sér um framleiðslu á öllu meðlæti fyrir kaffihús Kaffitárs sem eru sex talsins. Af ársreikningum félagsins að dæma hefur Kaffitár skilað hagnaði frá árinu 2008 og náði afkoman ákveðnum hápunkti árið 2013 þegar hagnaður félagsins nam 86 milljónum króna. Árið 2012 og 2013 greiddi félagið út samtals 70 milljóna króna arð. Árið 2014 tók hagnaður félagsins að dragast saman og rekstrarárið 2015 skilaði félagið tapi upp á 20 milljónir króna. Að sögn Aðalheiðar má rekja tapreksturinn til stofnunar Kruðerís.

„Þetta er hins vegar tímabundið ástand eins og alltaf þegar verið er að byggja upp nýtt fyrirtæki og ég á von á því að 2017 verði miklu betra en árin 2016, 2015 og 2014 voru. Við lítum mjög björtum augum til framtíðar.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast eintak af blaðinu á pdf-formi með því að smella á hlekkinn Tölublöð.