Þegar íslensk stjórnvöld sömdu við Danmörk, Svíþjóð, Finnland og Noreg um að veita Íslandi lán á árinu 2009, var samið um að ekki yrði greitt af höfuðstóli lánanna á fyrstu fimm árum samninganna.

Fyrsta greiðsla er því á síðasta degi ársins 2014. Síðasta greiðsla verður innt af hendi í árslok 2021. Ekki var dregið á alla lánsfjárhæðina í einu. Í desember 2009 fengust 219 milljónir evra greiddar, um 430 milljónir voru teknar að láni í júní 2010 og síðasta greiðsla frá Svíþjóð, Finnlandi og Danmörku fékkst í desember á síðasta ári. Þá voru lánin nýtt til fulls þegar 647,5 milljónir evra voru fengnar að láni.

Greitt verður af lánunum ársfjórðungslega í jöfnum greiðslum. Vextir lánanna reiknast á þriggja mánaða fresti, samkvæmt upplýsingum frá fjármálaráðuneytinu. Þeir taka mið af þriggja mánaða EURIBOR vöxtum, að viðbættu 2,75 prósenta álagi.

Af norrænum lánum er lán Færeyinga ótalið. Það er að fjárhæð 300 milljóna danskra króna og eru afborganir þess í desember á árunum 2013 til 2015. Vaxtagjalddagar eru árlegir.

Tengdar fréttir: Ísland byrjað að endurgreiða AGS .

Nánar er fjallað um málið í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.