Skiptum er lokið á búi sjónvarpsstöðvarinnar ÍNN en lýstar kröfur í búið voru tæpar 40 milljónir króna. Engar eignir fundust í búinu og því er skiptum lokið án þess að neitt sé greitt upp í kröfurnar.

ÍNN var lýst gjaldþrota þann 15. nóvember síðastliðinn en stuttu áður hafði útsendingum stöðvarinnar verið hætt.

Félagið hafði lengi vel verið rekið af Ingva Hrafni Jónssyni, sem sá um sjónvarpsþáttinn Hrafnaþing en á tólf mánuðum í aðdraganda gjaldþrotsins hafði félagið skipt um eigendur í tvígang. Fyrst keypti Pressan félagið undir forystu Björns Inga Hrafnssonar en síðar keypti Frjáls fjölmiðlun félagið af Birni Inga.