Ekki hefur farið fram heildstætt eða skipulagt mat á áhrifum stjórnarskrártillagnanna í heild, að því er segir í skilabréfi sérfræðingahóps stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis. Hópurinn leggur til þónokkrar tillögur til breytinga á tillögu stjórnlagaráðs, m.a. til að endurspegla betur alþjóðlegar skuldbindingar Íslands og að bæta innbyrðis samræmi mismunandi ákvæða. Þá hefur ákveðnum ákvæðum verið breytt til að ná fram auknum skýrleika í stjórnarskrártillögunum.

Sérfræðingahópurinn taldi að umboð sitt til að leggja beint til sértækar breytingartillögur væri takmarkað, en kom hins vegar einnig með frekari athugasemdir og ábendingar í þriðja kafla skilabréfsins.

Í þessum kafla kemur m.a. fram að gera verði kröfu um að tilefni og markmið breytinga á núgildandi stjórnskipan sé skýrt og rök séu færð fyrir því að leið frumvarps sé skynsamleg. Það sé einnig grundvallarsjónarmið varðandi gæði lagasetningar að mnetin séu áhrif tillagna sem feli í sér breytingar. Eins og áður segir hefur slíkt mat ekki farið fram á áhrifum stjórnarskrártillagnanna í heild. Hins vegar bendir sérfræðingahópurinn á að stjórnlagaráðið sjálft gerir mati á áhrifum hátt undir höfði þegar það leggur til í 2. mgr. 57. gr. að mat á áhrifum lagasetningar skuli fylgja frumvörpum til laga.