Enn er sölu á húsi Orkuveitu Reykjavíkur að Bæjarhálsi í Reykjavík ekki lokið. Eins og VB.is hefur greint frá strandar málið á því að Straumur fjárfestingabanki hefur ekki náð að finna fjárfesta sem gætu tekið þátt í fjármögnun sjóðs sem ætlað er að kaupa húsnæðið.

Eins og fram hefur komið á VB.is bauð Straumur 5,1 milljarð króna í húsið í nafni óstofnaðs félags í byrjun árs og var stefnt að því að klára söluna á fyrsta ársfjórðungi.

Þegar Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, spurðist fyrir um málið í síðustu viku í stjórn Orkuveitunnar fékk hann þau svör að ekki hefði verið staðið við tilboðið.

VB.is hefur í þrjá daga í röð reynt að ná tali af Jakobi Ásmundssyni, forstjóra Straums, vegna málsins og lagt fyrir hann skilaboð án árangurs.