Margir markaðsaðilar áttu von á yfirlýsingu frá Seðlabankanum fyrir helgi um fleytingu krónunar en ekkert bólar á henni. Seðlabankinn hafði sagst ætla að gefa slíka yfirlýsingu þegar lánið frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum (IMF) væri í höfn og áttu margir von á blaðamannafundi í kjölfarið.

Sérfræðingar á markaði telja að líklega verði beðið eftir peningum í gjaldeyrisforðann frá IMF og öðrum lánveitendum áður en krónuflotið hefst fyrir alvöru. Nauðsynlegt sé fyrir Seðlabankann að hafa einhverja milljarða af evrum í vopnabúrinu því hlutirnir geta gerst afar hratt um leið og opnað verður fyrir fjármagnsflutninga.

,,Fyrst gætu þeir raunar reynt að létta hömlum af öðrum gjaldeyrisviðskiptum en hreinum fjármagnstengdum viðskiptum, því Seðlabankinn hefur gefið í skyn að fleytingin verði gerð í áföngum. Tíminn líður hratt, og þeir verða að hafa hraðar hendur ef á að nást að fleyta krónunni að fullu fyrir jól - gæti þá annars orðið frá og með nýju ári,” sagði ein sérfræðingur.