Launavísitalan hefur hækkað um 0,3% milli júní og júlí árið 2019. Breytingin á ársgrundvelli nam 4,2% sem er lægsta árshækkun frá árinu 2011. Búist var við töluvert meiri hækkun á vísitölunni í kjölfar kjarasamninganna í vor. Þetta kemur fram hjá Greiningardeild Landsbankans.

Kaupmáttur launa hefur hins vegar verið nokkuð stöðugur undanfarna mánuði og jókst eitthvað eftir að samningar voru gerðir. Frá upphafi ársins 2015 hefur kaupmáttur launavísitölu hækkað um 6% á ári en hún var 2,2% hærri en á sama tíma í fyrra.

Kaupmáttur launa, eins og hann mælist með launavísitölu, hefur aldrei verið meiri en aukning hefur verið mikil og stöðug allt frá árinu 2010 fram á árið 2018. Næstu samningsbundnu launabreytingar á almenna markaðnum verða hins vegar ekki fyrr en í apríl á næsta ári.

Hækkun launa frá maí 2018 til maí 2019 nam 5,1%. Þar af hækkuðu laun verkafólks mest, eða um 6,6% og laun sérfræðinga og stjórnenda hækkuðu minnst, eða undir 3%. Því virðist sem markmið kjarasamninganna um að hækka lægstu launin mest hafi gengið eftir.