Ekkert lamba- eða kindakjöt hefur verið flutt til landsins í rúmt ár eða síðan í maí í fyrra og á fyrri hluta þess árs var einungis flutt inn 1,5 tonn. Þetta kemur fram á vef Landssamtaka sauðfjárbænda.

Samkvæmt samningi Íslands við Alþjóðaviðskiptastofnunina (WTO) er árlega auglýstur 345 tonna tollkvóti fyrir lambakjöt sem má flytja inn á lágmarkstollum. Á vef samtakanna segir að í fyrra hafi verið sótt um 60 af þessum 345 tonnum og var það fyrirtækið Íslenskar matvörur sem fékk úthlutað þessi 60 tonn.

Kvótinn gildir frá 1. júlí til 30. júní og því ljóst að fyrirtækið hefur ekki nýtt neitt af þessum kvóta því ekkert var flutt inn á þessu tímabili. Nýbúið er að úthluta kvóta, sem gildir frá 1. júlí í ár til 30. júní á næsta ári. Íslenskar matvörur sóttu aftur um 60 tonn og fengu og Innes fékk úthlutað 10 tonnum.