Um 15 milljarðar króna eru á fjárlögum 2010 eyrnamerktir landbúnaði á einn eða annan hátt. Þar eru beingreiðslur til bænda stórtækastar eða upp á samtals 9,8 milljarða og meira að segja greiðir ríkið framlag bænda í eigin lífeyrissjóði. Greiðslur vegna búvöruframleiðslu í fjárlagafrumvarpi fyrir 2011 eru áætlaðar 10,6 milljarðar króna.

Gagnrýni á þetta kerfi hefur farið vaxandi hin síðari ár en formaður Bændasamtaka Íslands hefur bent á að ekki sé nóg að gagnrýna ef ekki sé bent á neinar aðrar og betri leiðir. Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytunum voru eyrnamerktir rúmir 18,9 milljarðar í fjárlög 2010. Stærstur hluti þess fjármagns er vegna landbúnaðarhlutans í starfsemi ráðuneytisins og þar með margvíslegar greiðslur til bænda eða samtals 15.252,4 milljónir króna. Það er ríflega þrefalt það fjármagn sem rennur úr ríkissjóði til trúmála í landinu en háværar kröfur hafa verið um aðskilnað ríkis og kirkju. Á sömu forsendum mætti því allt eins gera kröfur um aðskilnað ríkis og bænda.

Þráfaldlega verið bent á það í skýrslum m.a. frá OECD að þrátt fyrir veglegan stuðning ríkisins við landbúnaðinn standi hann samt ekki undir sér. Þrátt fyrir yfirlýsta andstöðu íslenskra jafnarðarmanna við styrkjakerfi landbúnaðarins og forystu þeirra í ríkisstjórn virðist samt engin breyting í augsýn á þessu kerfi.

Sjá nánar úttekt um ríkisstuðning við landbúnað í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.