*

þriðjudagur, 25. febrúar 2020
Innlent 11. ágúst 2017 12:45

Ekkert lát á ferðagleði Íslendinga

Aldrei hafa fleiri Íslendingar flogið frá Keflavíkurflugvelli eins og í júlí, ef undan er skilin júní í fyrra.

Ritstjórn

Íslendingar voru á faraldsfæti í júlí sem leið en þá innrituðu 62.483 landsmenn sig í flug frá Keflavíkurflugvelli. Aðeins einu sinni hafa fleiri Íslendingar ferðast um Keflavíkurflugvöll í einum mánuði. Það var í júnímánuði í fyrra þegar þjóðin fjölmennti á Evrópukeppnina í Frakklandi. Þetta kemur fram í frétt á vefnum Túristi.is.

Íslensku farþegarnir voru litlu færri í júní síðastliðnum þegar 62.234 farþegar flugu erlendis frá Keflavíkurflugvelli. Þá komast apríl og maí á þessu ári einnig á lista yfir þá mánuði sem Íslendingar hafa ferðast mest til útlanda frá upphafi.

Í júlí voru að meðaltali farnar um 100 áætlunarferðir á dag frá Keflavíkurflugvelli samkvæmt talningu Túrista. Miðað við þann fjölda má segja að Íslendingar hafi fyllt níundu hverja farþegaþotu sem tók á loft frá Keflavík í síðasta mánuði.