Ekkert lát virðist á hækkun landbúnaðarhrávara á alþjóðlegum mörkuðum, og gæti sú þróun haft nokkur áhrif á verðlagsþróun hérlendis á næstunni.

Fjallað er um málið í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka.

„Til að mynda er verð á hveiti nú hærra en það hefur verið undanfarin tvö og hálft ár eftir snarpa hækkun síðustu daga. Hveitiverð hækkaði raunar verulega á áliðnu síðasta sumri, og hefur uppskerubrestur vegna rysjóttrar veðráttu í stórum hveitiútflutningslöndum á borð við Rússland og Ástralíu haft sitt að segja. Í krónum talið hefur hveitiverð þannig hækkað um 90% frá miðju síðasta ári, ef miðað er við vísitölu NASDAQ fyrir hveitiverð. Aðrar kornvörur hafa einnig margar hverjar hækkað verulega, en á sama tíma hefur raunar innlent verð á brauði og kornvörum lítið breyst, miðað við mælingu Hagstofunnar.“

Hefur áhrif á neysluverð hérlendis

Segir að gera megi ráð fyrir að verðbólguþrýstingur kunni að verða allnokkur hér á landi á næstunni. „Á heildina litið hafa landbúnaðarvörur á alþjóðamörkuðum hækkað töluvert frá miðju síðasta ári, sér í lagi ef einnig er tekin með í reikninginn veiking krónu á tímabilinu. Ef miðað er við Rogers-landbúnaðarverðvísitöluna nemur hækkunin í krónum talið þannig ríflega 60% á þessu tímabili.

Hins vegar verður að hafa í huga að á fyrri hluta síðasta árs styrktist krónan töluvert og verð á landbúnaðarvörum lækkaði almennt erlendis. Nærtækara er því að líta á þróunina frá upphafi árs 2010, og kemur á daginn að ofangreind vísitala bendir til þess að verð erlendra landbúnaðarvara í krónum talið sé nú u.þ.b. fjórðungi hærra en raunin var í ársbyrjun í fyrra. Þegar við bætist að aðrar hrávörur á borð við bómull og olíu hafa einnig hækkað umtalsvert á erlendum mörkuðum síðustu mánuði má gera ráð fyrir að verðbólguþrýstingur hér á landi vegna þessarar þróunar kunni að verða allnokkur á næstunni.“

Vaxandi áhyggjur af verðbólguþróun


Áhyggjur erlendis hafa aukist jafnt og þétt eftir því sem bætt hefur í verðhækkun landbúnaðarvara. Til að mynda hafa æðstu menn Evrópska seðlabankans (ECB) ítrekað lýst áhyggjum af þessari þróun og áhrifum hennar á verðbólguhorfur á evrusvæðinu, þótt þeir sjái ekki ástæðu til að hækka vexti þess vegna að sinni. Töluverðu púðri hefur einnig verið eytt í umræður um hrávöruverð á ráðstefnu World Economic Forum sem nú stendur yfir í Davos í Sviss. Hafa ráðamenn á borð við Nicolas Sarkozy, forseta Frakklands, kallað eftir strangara regluverki til að draga úr spákaupmennsku með hrávörur, og þar með verðsveiflum á þeim markaði. Aðrir þátttakendur á ráðstefnunni benda hins vegar á að sveiflur í hrávöruverði nú um stundir eigi sér eðlilegar skýringar að miklu leyti, og vara við auknum boðum og bönnum á hrávöruverðsmörkuðum.“