Guðjón Helgason upplýsingafulltrúi Isavia segir að ekki hafi skapast öngþveiti á Keflavíkurflugvelli í morgun vegna falls Wow air sem Viðskiptablaðið greindi fyrst fjölmiðla frá í morgun . Enda hafi félagið verið búið að tilkynna um það upp úr klukkan fjögur í nótt að ekki yrði af flugi í dag , en Evrópuflug félagsins átti að leggja af stað á milli 6 og 7 í morgun.

Áður höfðu borist fréttir af seinkunum ferða félagsins frá áfangastöðum í Norður Ameríku, en vélar frá Montreal, Toronto, Boston, Detroit, Newark nálægt New York og Baltimore nálægt Washington áttu að koma á milli 4:35 og 5:00 í morgun. Viðskiptablaðið hefur jafnframt fjallað um að ástæða falls Wow air hafi verið að leigusalar flugvéla félagsins hafi misst þolinmæðina.

„Það var ekki svo að fjöldi fólks hefði verið í vandræðum en starfsmenn Isavia aðstoðuðu þá sem þurfti,“ segir Guðjón sem þakkar því að tilkynnt var svona snemma um að fluginu yrði aflýst svo brottfararfarþegar hefðu ekki mætt á völlinn í stórum stíl.

Stöðvuðu vél Wow air á Keflavíkurflugvelli

Í tilkynningu frá Isavia segir að ríkisfyrirtækið hafi beitt stöðvunarheimild, sem byggir á loftferðalögum, á flugvél Wow air sem staðsett var á Keflavíkurflugvelli, til tryggingar á ógreiddum notendagjöldum.

„Isavia harmar það að WOW air hafi hætt rekstri enda hefur félagið flutt fjölmarga farþega um Keflavíkurflugvöll síðastliðin sjö ár og verið mikilvægur hlekkur í velgengni Keflavíkurflugvallar og uppbyggingu ferðaþjónustu á Íslandi,“ segir jafnframt í tilkynningunni.

„Það er ljóst að brotthvarf WOW air mun hafa áhrif á rekstur Keflavíkurflugvallar. Isavia mun á næstunni fara yfir hver þau áhrif kunni að verða. Starfsfólk Isavia á Keflavíkurflugvelli mun aðstoða farþega WOW air eftir bestu getu í dag og næstu daga.“

Beint flug alls staðar nema frá Montreal og Detroit

Vænta má þess að yfir þúsund ætlaðir farþegar Wow air vestanhafs hafi ekki komist leiðar sinnar í morgun, en Túristi segir að um sjöundi hver farþegi Wow air sé búsettur hér á landi og því líklega um nokkur hundruð Íslendinga án flugmiða heim. Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um er réttur farþega með ferðaskrifstofum meiri en annarra farþega.

Í flestum tilfellum sé þó hægt að finna beint flug með öðrum flugfélögum heim frá sömu borg, það er fyrir utan farþega frá Montreal í Kanada og Detroit frá Bandaríkjunum. Í sumum tilfellum sé jafnvel ódýrara að bóka heimferðina með millilendingu.

Aðrir valkostir fyrir farþega Wow sem eru að leita að ferðum heim:

  • Amsterdam: Icelandair
  • Baltimore/Washington: Icelandair
  • Berlín: Icelandair
  • Boston: Icelandair
  • Brussel: Icelandair
  • Detroit: Ekkert beint flug
  • Dublin: Icelandair
  • Frankfurt: Icelandair og Lufthansa
  • Kaupmannahöfn: Icelandair og SAS
  • Las Palmas: Ferðaskrifstofurnar Heimsferðir, Úrval-Útsýn og VITA
  • London: British Airways, easyJet, Icelandair og Wizz air
  • Montreal: Ekkert beint flug
  • New York: Delta, Icelandair og United Airlines
  • Paris: Icelandair
  • Tenerife: Ferðaskrifstofurnar Heimsferðir, Úrval-Útsýn og VITA
  • Toronto: Air Canada, Icelandair og Wow

Ríkisstjórnin þurfi að grípa inn í vegna orðspors landsins

Að mati Sveins Þórarinssonar sérfræðings í hagdeild Landsbankans, sem Morgunblaðið segir frá, gætu viðbrögð stjórnvalda vegna farþeganna sem eru strandaglópar hér á landi skipt sköpum um framhaldið. Þá sérstaklega um orðspor landsins, ekki síst í ljósi áhrifamáttar samfélagsmiðla.

„Málið í dag er hvernig farþegum sem þurfa að komast heim til Íslands og útlendingum sem þurfa að komast héðan verður komið til aðstoðar, Hvað verður um þá og hvernig verður þeim komið heim er stóra verkefnið í dag,“ segir Sveinn sem spyr hvort að viðbragðsáætlun stjórnvalda verði virkjuð.

„Við sjáum þegar viðbrögðin. Twitter fer á hliðina. WOW og Ísland er nú meira ruglið [...] „Þetta getur verið vont og það sem maður hefur kannski mestar áhyggjur af. Það er útlendingar sem eru fastir hér á landi sem lýsa því hvernig þeir sitja fastir á einhverri eyju og þeir þurfi að greiða háar fjárhæðir til að koma sér héðan. Þetta er ákveðin áhætta og um leið stærsta málið að við höfum aldrei gert þetta áður. Þegar loðnan hverfur þá vitum við hvað gerist því það hefur gerst svo oft. En þetta hefur aldrei gerst áður á þennan hátt. Þannig að óvissan er gríðarleg.“