Á blaðamannafundi vegna afnáms gjaldeyrishafta fyrr í dag sagðist Benedikt Jóhannesson að hann vonaðist til þess að nú myndi draga úr gengisstyrkingunni.

,,Ég hef talað fyrir því að sporna við styrkingu krónunnar og ég hef talað um að þetta sterka gengi krónunnar sé erfitt fyrir ferðaþjónustu og útflutningsfyrirtæki," sagði Benedikt en hann segir erfitt að meta hvert æskilegt gengi krónunnar ætti að vera.

,,En mér skilst að raungengi krónunnar nú sé álíka og það var fyrir 10 árum, og velti ég því fyrir mér hvort það sé sjálfbært raungengi. Gengið er nú orðið gríðarlega sterkt, og sagan hefur kennt okkur að þar getur verið vendipunktur.

Ég held að þessi aðgerð sýni mönnum að þetta er búið svo nú eru það fyrst og fremst lífeyrissjóðirnir sem maður sér fyrir sér að fari með peninga úr landi. Þá fer kannski að koma meira jafnvægi í fjárstreymi inn í landið og út úr því aftur."

Lífeyrissjóðirnir allt að 170% af landsframleiðslu

Benedikt er ekki viss um að það þurfi að setja gólf á fjárfestingar lífeyrissjóðanna erlendis.

,,Ég held það sé skynsamlegt að menn hugsi það að minnsta kosti þannig, ég er ekki viss um að það þurfi að setja það með lögum eða hvort menn sjái það sjálfir," sagði Benedikt sem segist eilítið vera byrjaður að ræða þessi mál við lífeyrissjóðina.

,,Ég sé að minnsta kosti fyrir mér að hámarkið yrði afnumið, en mér finnst eðlilegt að menn miði við að hafa ekki minna en 50% erlendis, til áhættudreifingar.

Lífeyrissjóðirnir eru orðnir mjög stórir, 160-170% landsframleiðsla og munu bara fara stækkandi á næstu árum, og það er ekkert pláss fyrir alla þessa peninga hér."