Ekkert fyrirtæki hefur efni á því að hafa það sem ég kalla dauðyfli í stjórnum fyrirtækja, fólk hvers eina hlutverk í stjórninni er að fylla út í sætið, án þess að bæta neinu virði við,“ segir Lucy P. Marcus sem var frummælandi á ráðstefnu um góða stjórnarhætti í vikunni.

„Þú verður að hafa hóp við borðið sem er annt um fyrirtækið og að halda því við efnið og ýta á það til frekari árangurs. Ég held að fjárfestar verði að hugsa vandlega um hvert hlutverk þeirra er í þessu kerfi, svo þeir haldi fyrirtækjum sínum við efnið.“

Á ráðstefnunni Góðir stjórnarhættir – Fyrirmyndarfyrirtæki í góðum stjórnarháttum, sem Rannsóknamiðstöð um stjórnarhætti við HÍ hélt í Hörpu á þriðjudag, fjallaði Marcus, sem er prófessor í leiðtogafræðum og stjórnarháttum við IE Viðskiptaskólann í Madríd, um hvað stjórnir þurfa að hafa í huga um hvort tveggja fortíð en sérstaklega framtíð stjórnarhátta.

Hún hefur varað við því að stjórnarmenn lifi í einhvers konar takmörkuðum veruleika sem ekki endurspegli veruleikann sem fyrirtækið starfi í, en hún er reglulega með innslög hjá BBC og eigin sjónvarpsþætti hjá Reuters um hlutverk stjórna í fyrirtækjum.

„Ég hef hitt og rætt við örugglega um 100 stjórnir á ári, stundum á stjórnarfundum, stundum bara yfir hádegisverði eða annað og höfum við rætt um hvað þær gera og hvernig heimurinn sé að breytast, og það sem mér hefur fundist einna merkilegast er að fólk heldur alltaf að þeirra land sé öðruvísi eða þeirra aðferð sé sérstök eða öðruvísi en gert sé annars staðar,“ segir Marcus.

„En í raun er eitt af því sem ég hef áttað mig á eftir að hafa setið í og með stjórnum margra fyrirtækja og stofnana, að þú ert oft með sömu manngerðirnar í öllum stjórnum.

Það er sá sem aldrei les undirbúningsskjölin fyrir fundina og svo er sá sem alltaf spyr spurninga um þau sértæku atriði sem þeim er annt um. Svo það er sama hvað kemur upp, alltaf færa þeir umræðuna að þessu tiltekna málefni. Svo er sá sem á það til að sofna, það gerist, ég sver það, og svo er það sá sem talar stanslaust. Í hverri stjórn finnurðu þessar sömu gerðir af fólki, þetta er oft eins og leikþáttur.“

Marcus skiptir hlutverkum stjórna í stórum dráttum í tvennt, en hún leggur áherslu á að nauðsynlegt sé að jafnvægi ríki milli beggja hlutverkanna.

„Annað er það sem ég kalla áhersla á grundvöllinn, en hin er að horfa til skýjanna. Grundvöllurinn snýst í raun um að tékka af öll mikilvægustu atriðin í rekstrinum, er fyrirtækið að fylgja reglum, er reikningshaldið rétt, er það að gera alla réttu hlutina til að uppfylla skilyrðin um góðan rekstur,“ segir Marcus.

„Hitt atriðið, að horfa til skýjanna, snýst um hvort fyrirtækið sé að horfa til framtíðar, er það að gera það sem það þarf til að vera komið þangað sem það vill vera eftir tíu ár. Of oft hugsa stjórnendur ekki nóg um herkænsku og að ýta við fyrirtækinu svo það nái enn meiri árangri.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .