Friðrik J. Arngrímsson, framkvæmdastjóri LÍÚ, segir stjórnvöld ekkert hafa rætt við samtökin síðan sáttanefndin lauk störfum fyrir rúmu hálfu ári síðan. Í samtali við Morgunblaðið segir hann þessa stöðu með öllu óásættanlega enda hafi sjávarútvegnum í raun verið haldið í óvissu í nær tvö ár.

Friðrik segir nauðsynlegt að samráð sé haft við greinina varðandi breytingar á lögum um fiskveiðistjórnun þar sem slíkar breytingar muni hafa bein áhrif á fyrirtækin í greininni. Hann segir það grafalvarlegt hvernig málin hafa þróast.

Lilja Rafney Magnúsdóttir, formaður sjávarútvegsnefndar Alþingis, segir í samtali við Morgunblaðið stefnt að því að afgreiða nýtt frumvarp að lögum um fiskveiðistjórnun á vorþingi og bindur hún vonir við að ný lög gildi taki gildi frá og með 1. september en þá hefst nýtt fiskveiðiár. Það komi í ljós á næstu vikum hvort svo fari.

Lilja segir að tafir á endurskoðun laganna stafi af því að þegar um svo umfangismikið mál sé að ræða verði „innansleikjurnar drjúgar.“ Hún segir að þótt málið sé á forræði sjávarútvegsráðherra hafi oddvitar stjórnarflokkana komið að því að undanförnu.