Nýr stjórnarsáttmáli og fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar fyrir árið 2022 voru kynnt í vikunni. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir 5,3% hagvexti á næsta ári en ekki verður gripið til niðurskurðar eða skattahækkana. Gert er ráð fyrir áframhaldandi hallarekstri ríkissjóðs á næsta ári, eða 169 milljarða króna halla, sem þó er 120 milljörðum betri afkoma en á þessu ári. Gert hafði verið ráð fyrir 200 milljarða halla en betri efnahagshorfur endurspeglast í uppfærðri áætlun.

Þegar Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra kynnti fjárlagafrumvarpið boðaði hann varkárni í ríkisfjármálum í ljósi þess að Seðlabankinn hefði lýst yfir áhyggjum af verðlagsþróuninni, en lausara taumhald myndi leiða af sér aukinn verðbólguþrýsting. Ríkið færi því ekki í reiptog við Seðlabankann á meðan framleiðsluslakinn væri að hverfa og Seðlabankinn að hækka vexti.

Kaupmáttur hefur hækkað

Sem hlutfall af landsframleiðslu hafa laun aukist mest á Íslandi meðal OECD ríkja en kaupmáttur allra tekjutíunda hefur einnig hækkað síðastliðin tvö ár. Áréttað er í frumvarpinu að mikilvægt sé að umgjörð vinnumarkaðarins sé þannig að kjarasamningar taki mið af efnahagslegum skilyrðum og skili farsælli niðurstöðu. „Hér hefur verið mikil kaupmáttaraukning á undanförnum árum og það er mikilvægt að standa vörð um þann mikla árangur. Það er hægt að setja góða stöðu í uppnám ef við reynum að taka meira út en innistæða er fyrir. Það er því mikilvægt að við náum samstöðu um að vinnumarkaðurinn styðji við aðgerðir Seðlabankans með svipuðum hætti og við erum að reyna að gera með opinberu fjármálunum. Takist okkur að auka ekki á þenslustigið mun það hafa jákvæð áhrif á þróun vaxta - það myndi ég kalla farsæla niðurstöðu," segir Bjarni.

Hagstæðar markaðsaðstæður

Gert er ráð fyrir að skuldahlutfall ríkissjóðs muni nema um 34% af vergri landsframleiðslu í stað þeirra 42% sem búist var við. Sala á 35% eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka ásamt öflugum efnahagsbata eru nefndar sem meginástæður bættrar skuldastöðu ríkissjóðs. Bjarni segir ákjósanlegar markaðsaðstæður meginforsenduna fyrir áframhaldandi sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka. „Ótímabært er að tala um tímasetningar eða umfang á slíkri sölu. Meginmarkmið okkar er að vanda okkur og reyna með því að tryggja að við séum að losa um eignarhlutinn þegar markaðsaðstæður eru okkur sem seljanda hagstæðar."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .