Kjarasamningar aðildarfélaga Alþýðusambands Íslands (ASÍ) við Samtök atvinnulífsins (SA) eru lausir frá og með deginum í dag, 28. febrúar. Stærstu aðildarfélögin sem nú setjast við samningaborðið eru Starfsgreinasamband Íslands, verslunarmenn og Flóinn. Viðræður eru þegar hafnar og fundað verður stíft næstu daga.

Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri SA, segir að viðræðurnar núna séu sérstaklega flóknar. Það sé meðal annars vegna þess að ASÍ sé ekki með samræmda kröfugerð og því þurfi SA að semja samböndin hvert í sínu lagi. "Það er alveg ljóst að þetta verða mjög snúnar viðræður sem gætu dregist mjög á langinn," segir Þorsteinn

„Kröfugerð VR og Flóans fela að okkar mati í sér um 20% launahækkun á einu ári. Kröfugerð Starfgreinasambandsins felur í sér að lágmarki 50% launahækkun á þriggja ára tímabili. Starfsgreinasambandið er sér á báti því allir aðrir hópar vilja styttri samninga. Þessar kröfugerðir eru hvorki settar fram í samhengi við hið efnahagslega undirliggjandi svigrúm né nákvæmrar samanburðarfræði við aðra hópa. Við sjáum ekkert í þeim gögnum sem við sameiginlega höfum unnið sem réttlætir heljarstökk upp á 20% eða þaðan af meira.

Kaupmátturinn á síðasta ári hækkaði miklu meira en við reiknuðum með. Við vorum að vonast eftir 2 til 3 prósentum en stöndum uppi með liðlega 5 prósent. það er einstakur árangur sem er mjög mikilvægt að verja og byggja ofan á en ekki kollsteypa með einhverri vitleysu núna."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .