Samkvæmt niðurstöðum nýrrar könnunar MMR telja 69% þjóðarinnar að enginn einn einstaklingur sé eða geti verið sameiningartákn þjóðarinnar.

Guðni forseti næst því

Sá einstaklingur sem kemst næst því er Guðni Th. Jóhannesson nýkjörinn forseti Íslands en 15,4% nefna hann. Aðrir einstaklingar fá 3% eða minna.

Spurningin sem spurð var dagana 20. til 26. september hljóðaði svona: „Er einhver einstaklingur í samfélaginu sem þú telur öðrum fremur að sé eða geti orðið sameiningartákn fyrir íslensku þjóðina?“

Vigdís og Davíð Oddson áður næst því

Niðurstaðan er svipuð og árið 2009 þegar 72,1% svöruðu spurningunni neitandi, en núna ar hlutfallið 68,9%. Árið 2009 komst Vigdís Finnbogadóttir fyrrverandi forseti næst því með 4,5% og Davíð Oddsson var næstur þar á eftir með 3,8%.

Þá fékk sitjandi forseti, Ólafur Ragnar Grímsson 1,0% sem er minna en Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon fengu. Vigdís hefur lækkað niður í 3% í nýju könnuninni.

Af þeim sem nefndir voru oftast eru flestir fyrrverandi eða núverandi kjörnir fulltrúar, fyrir utan Pál Óskar Hjálmtýsson tónlistarmann, en 1,1% svarenda nefndu hann. Aðrir sem skoruðu núna nokkuð hátt voru Bjarni Benediktsson með 1,0% og Katrín Jakobsdóttir með 1,5%.