Samningaviðræðum útgefenda Fréttablaðsins og Morgunblaðsins hefur verið slegið á frest samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins.

Að svo stöddu ber of mikið í milli samningsaðila til að samkomulag geti náðst.

Samningaviðræður um samstarf hafa staðið yfir nokkuð lengi. Bæði útgáfufélögin gefa út fríblöð, Fréttablaðið og 24 stundir, en samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins er kostnaður við hverja síðu síðarnefnda blaðsins um 30% lægri sökum samlegðar við Morgunblaðið.

Heimildarmaður Viðskiptablaðsins hermir að litlar líkur séu á samstarfi milli útgefendanna í bráð.

Mikils áhuga gætti hjá útgefendum blaðanna á hagræðingu í prentun, en ljóst þótti að blöðin myndu áfram notast við eigin dreifikerfi. Ekki liggur ljóst fyrir hvað það var þó nákvæmlega sem lagði samningaviðræðurnar á ís – að svo stöddu.