Viðskiptablaðið ræddi við Helgu Valfells í vikunni.

Hvað kemur nýsköpunarfrumkvöðlum mest á óvart þegar þeir leggja af stað út í heiminn? „Mikilvægi þess að selja vöruna. Hugsunin „þetta selur sig sjálft“ er ótrúlega algeng. Maður hittir mjög mikið af góðu tækni- og vísindafólki sem finnst gaman að þróa vöru en leiðinlegt að þróa sölu. Það þarf að fara jafnmikill tími og fjármagn – ef ekki meira – í að þróa markaðinn og selja vöruna og láta heiminn vita af henni eins og fer í að þróa vöruna sjálfa. Þetta eru, held ég, mjög algeng mistök á Íslandi.

Við erum mjög hugmyndarík og dugleg að þróa vöru en höfum minni áhuga á markaðnum. Fólk heldur líka stundum að ef vara selst ekki þá þurfi að þróa hana meira, frekar en að nálgast markaðinn á nýjan hátt. Einn erlendur maður kom hingað og líkti þessu við að vera búinn að baka pítsu áður en nokkur maður væri búinn að panta hana, hvernig á veitingastaðurinn að vita fyrirfram hvernig pítsa verður pöntuð án þess að tala við viðskiptavininn.

Því það er ekkert sem selur sig sjálft. Einn frumkvöðull sagði til dæmis við mig að hann ætlaði að láta aðra sjá um söluna. En þá þarf hann samt að selja þeim sem ætla að selja vöruna fyrir hann vöruna. Tekjur af sölu eru líka besta fjármögnun sem fyrirtæki fá. Á komandi misserum er líka útlit fyrir að það verði tæknibylting þannig að það væri áhugavert að heyra hvað komandi ríkisstjórn ætlar að gera í málefnum ný- sköpunar. Þetta er mjög mikilvægur málaflokkur. Það er hægt að búa til tækni alls staðar og til að vera samkeppnishæf þurfum við að hugsa núna um fyrirtæki framtíðarinnar. Ríkið þarf líka að vinna skynsamlega að því að styðja þessi fyrirtæki án þess að það verði ruðningsáhrif.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .