Niðurstaðan úr gjaldeyrisútboðum Seðlabankans það sem af er ári gefur ekki sérstaka ástæðu til bjartsýni um að núverandi áætlun um afléttingu hafta geti skilað umtalsverðri lækkun á stöðu aflandskróna á næstunni. Ástæðan er sú að fjárhæðirnar í útboðunum eru of litlar í samanburði við snjóhengjuna svokölluðu til þess að gera gæfumuninn.

Þetta er mat Greiningar Íslandsbanka sem fjallar um sjötta gjaldeyrisútboð Seðlabankans á árinu. Útboðin eru liður bankans í afnámi hafta.

Erlendir aðilar hafa í síðustu fimm útboðum skipt 25,3 milljörðum króna fyrir tæplega 106 milljónir evra á á meðalgenginu 240 í útboðunum. Á móti hafa fjárfestar selt Seðlabankanum 245 milljónir evra í útboðunum, þar af 107 milljónir evra í skiptum fyrir verðtryggð ríkisbréf og 137,5 milljónir evra í skiptum fyrir krónur samkvæmt 50/50-leiðinni.

Greining Íslandsbanka segir í Morgunkorni sínu í dag:

„Verður því forvitnilegt að sjá hvort hærri fjárhæðir skipta um hendur á morgun en í síðustu útboðum, en m.v. ofangreinda umfjöllun er ljóst að nokkur óvissa er um framhaldið, og þá sér í lagi þátttöku lífeyrissjóða. Sjóðirnir gerðu samkomulag við stjórnvöld um að koma að gjaldeyrisútboðum Seðlabankans með allt að 200 m. evra, en tvennum sögum fer af því hvort sjóðirnir hafi eingöngu lofað að leggja fram tilboð sem námu þessari fjárhæð eða hvort þeir séu skuldbundnir til að selja þessa upphæð evra í útboðum fyrir áramót. Þá kunna að verða breytingar á áætlun um haftaafléttingu á næstunni ef marka má nýleg ummæli AGS að breyta þyrfti áherslum í áætluninni. Gæti jafnvel farið svo að útboðum verði hætt, eða fyrirkomulagi þeirra breytt, eftir næstu áramót.