Markaðsvirði Íslandsbanka, rétt tæpir 250 milljarðar króna, er í þokkalegu samræmi við sambærilega banka að teknu tilliti til arðsemi.

Verðmæti bankans, bæði í nútíð og fortíð, hefur verið nokkuð milli tannanna á fólki nýverið enda varla verið talað um annað en sölu Bankasýslunnar á 22,5% hlut í honum í lok mars frá því að hún fór fram.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra lét meðal annars nýlega hafa eftir sér að bankinn væri hátt verðmetinn í dag, og hefði hækkað gríðarlega í höndum ríkisins.

„Ekkert sérstaklega dýr miðað við arðsemi“
Snorri Jakobsson, eigandi greiningarfyrirtækisins Jakobsson Capital, segir þá fullyrðingu að bankinn sé hátt verðlagður í samanburði við erlenda banka byggja á algengum mistökum.

„Það sem flestir klikka á er samband arðsemi og verðs. Mistökin felast í því að gera ráð fyrir að það sé línulegt, en svo er ekki, það vex í veldisvexti. Arðsemi íslenskra banka er töluvert hærri en flestra banka erlendis, og því magnast misræmið upp. Sé tekið tillit til þess er Íslandsbanki ekkert sérstaklega dýr miðað við arðsemi,“ segir Snorri.

Verðmat fyrirtækja felst í grófum dráttum alla jafna í því að áætla arðsemi framtíðarinnar og núvirða síðan með tilliti til arðsemiskröfu. Arðsemi eiginfjár íslenskra banka um þessar mundir er á bilinu 12-15%, á meðan eðlileg arðsemiskrafa er á bilinu 11-12% að sögn Snorra.

„Svo er auðvitað veldisvöxtur á mismuninum, þannig að ef þú trúir því að bankinn geti haldið þeirri arðsemi til lengdar þá ætti P/B-hlutfallið að vera einhvers staðar vel fyrir ofan 1,“ útskýrir hann, en hlutfallið er 1,25 miðað við markaðsgengi bankans við lokun markaða í gær og arðsemin var 12,3% í fyrra og er nú orðin 12,9% síðastliðið ár eftir að bankinn skilaði uppgjöri fyrsta ársfjórðungs á miðvikudag, sem skilaði 10,2% arðsemi samanborið við fór úr 7,7% í fyrra.

Til samanburðar var meðaltal sex stórra banka á Norðurlöndunum hlutfall upp á 1,06 og 11,4% arðsemi. Fimm af stærstu bönkum meginlandsins eru svo á allt öðrum stað, með 0,46 og 8,2% að meðaltali.

Arion banki trónir á toppnum meðal samanburðarbankanna með P/B-hlutfallið 1,45, 14,7% arðsemi eigin fjár í fyrra og 14,9% sé fjórðungsuppgjör síðasta ársfjórðungs hvar hún hækkaði um 0,2 prósentustig milli ára tekið með í hlaupandi ársmeðaltali á sama hátt og að ofan fyrir Íslandsbanka.

Verðið vel réttlætanlegt

Már Wolfgang Mixa, lektor í hagfræði við Háskólann í Reykjavík, talar á svipuðum nótum og segir hátt P/B-hlutfall bankans vel réttlætanlegt.

„Þetta verð stendur mjög vel undir sér jafnvel þótt aðeins sé reiknað með 10% arðsemi eigin fjár til framtíðar. Það er nokkru lægra en í fyrra, en hafa ber í huga að nokkur hluti þeirrar afkomu voru einskiptisliðir á borð við uppfærslu lánasafns bankans,“ segir Már.

Verðmat samkvæmt ofangreindum aðferðum og forsendum getur verið nokkuð sveiflukennt sé aðeins horft til nýjustu talna og þær teknar inn hráar. Markaðsaðilar og heildstæðari útreikningar greiningaraðila horfa því almennt til lengri tíma og líta fram hjá einskiptisliðum að mestu eða öllu leyti, en eins og fram hefur komið áttu virðisbreytingar eignasafna bankanna stóran þátt í góðri afkomu síðasta árs.

Það er meðal annars í því ljósi sem Snorri metur arðsemi áframhaldandi rekstrar Íslandsbanka 10,1% í fyrra, auk þess sem yfirlýst markmið bankans sjálfs er að arðsemi sé yfir 10%. Hann telur horfur í rekstri bankans sem og annarra hér á landi þó bjartar.

Séu horft fram hjá hreinum virðisbreytingum nam arðsemi eigin fjár Arion banka í fyrra 12,7%, en í desember hækkaði bankinn arðsemismarkmið sitt úr 10% í 13%.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .