Það er ekkert sérstakt við framleiðslustörf og ekkert bendir til að þess að þau dragi úr ójöfnuði eða efnahagslegri frammistöðu að því er kemur fram í nýrri skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS).

Í umfjöllun Financial Times segir að niðurstaða AGS sé bylmingshögg fyrir stjórnmálamenn og hagfræðinga sem beiti þeirri orðræðu að það þurfi að verja framleiðslustörf og það sé gott fyrir hagkerfi að hafa öflugan framleiðslugeira.

AGS segir að framleiðsla hafi ekki nein sérstök áhrif á framleiðnivöxt í þróuðum hagkerfum og sé ekki nauðsynlegt skref í þróun nýmarkaðsríkja.

Það kann að slá á áhyggjur stjórnvalda ríkja með lítt þróuð hagkerfi af því að örar tækniframfarir setji þau í einskonar fátæktargildru. „Að sleppa einum fasa iðnvæðingar þarf ekki að draga úr framleiðnivexti og þróun hagkerfisins,“ segir í skýrslunni.

Niðurstöður rannsókna AGS eru því í beinni mótsögn við Donald Trump sem hefur gert það að afdráttarlausri stefnu ríkisstjórnar sinnar að verja framleiðendur þar í landi með viðskiptahindrunum vegna þess sem hann telur vera ósanngjarna samkeppni.

Sjóðurinn sagði að á yfirborðinu mætti sjá að minni hagvöxt og aukinn ójöfnuð í ríkjum þar sem framleiðslugeirinn hefur minnkað en að það stæðist ekki nánari skoðun.