Í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins í gær var talað við Vilhjálm Bjarnason viðskiptafræðikennara við Háskóla Íslands. Vilhjálmur segir ekkert stórslys hafa orðið á fjárhag þeirra heimila sem tekið hafa langtímalán í erlendum gjaldmiðli þó að gengi krónunnar hafi fallið.

Vilhjálmur sagði að þeir sem tekið hafa fasteignalán í erlendri mynt finni strax fyrir gengisfellingunni. Þeir sem tekið hafi verðtryggt lán muni einnig finna fyrir breytingunni til lengri tíma litið.

„Verð á gjaldeyri breytist í einum vettvangi, en verðtryggingin sígur inn á lengri tíma. Þegar til lengri tíma er litið virðist reyndin sú að verðtryggðu lánin hafa hækkað meira en síðustu daga og vikur er alveg öruggt mál að gengistryggðu lánin hafa hækkað. En þá má ekki gleyma því að þeir sem hafa tekið gengistryggðu lánin hafa haft ávinning þar til gengi krónunnar féll. Þeir koma einnig til með að hafa ávinning á eftirstöðvum lánstímans miðað við verðtryggðu lánin.“

Vilhjálmur segir þennan ávinning felast í því að til lengri tíma litið hafi gengi krónunnar styrkst miðað við verðtrygginguna, þ.e. neysluverðsvísitöluna. Það sjáist m.a. á því að þeir sem tóku gjaldeyrislán um mitt ár 2002 hafi þurft að greiða minna af því láni en þeir sem tóku verðtryggt lán. Þar að auki hafi vextir verið minni af erlendu lánunum. Nú hafi hins vegar orðið sveifla sem alltaf mátti búast við, en ekkert stórslys hafi gerst. Árið 2001 hafi gengi krónunnar líka lækkað mikið en það hafi gengið til baka án þess að gripið hafi verið til efnahagsaðgerða.