Seðlabanki Íslands hefur ekki svarað erindi Kaupþings frá október 2012 um undanþágu frá gjaldeyrishöftum vegna nauðasamninga. Þetta kemur fram í aðsendri grein Jóhannesar Rúnars Jóhannssonar í Morgunblaðinu í dag en hann á sæti í slitastjórn Kaupþings.

Hann leggur þar út af orðum Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, um að líftími slitabúa föllnu bankanna væri ekki endalaus og þau yrðu sett í þrot ef nauðasamningum yrði ekki fljótlega lokið.

„Mikilvægt er að þeir aðilar sem til málsins þekkja og að því þurfa að koma eigi greið samskipti og umræður um þau mikilvægu og flóknu álitaefni sem hér er um að ræða. Öðruvísi verða málin ekki leyst og erfitt er að sjá að það geti þjónað hagsmunum aðila að ræða ekki saman,“ segir Jóhannes og bendir á að slitastjórn Kaupþings sé ávallt tilbúin til viðræðna við hlutaðeigandi stjórnvöld.