Í nýjum stjórnarsáttmála Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks er gert ráð fyrir því að gólf verði afnumið á útsvari sveitarfélaga. Þýðir það að það verður ekkert lágmarksútsvar og sveitarfélögum því heimilt að hafa útsvarshlutfallið lægra en verið hefur. Oddvitar þeirra tveggja sveitarfélaga sem eru með lágmarksútsvar segja hins vegar ekkert svigrúm til að lækka það frekar. Breytingin mun því að öllum líkindum ekki hafa nein áhrif á útsvarsgreiðendur.

Núna er lágmarksútsvar 12,44%, en hámarksútsvar er 14,48%. Aðeins tvö sveitarfélög eru með lágmarksútsvar núna, Ásahreppur og Skorradalshreppur, en önnur sveitarfélög eru mun nær hámarkinu en lágmarkinu. Samkvæmt Sambandi íslenskra sveitarfélaga verður meðalútsvarið þetta árið 14,42%.

Davíð Pétursson, oddviti Skorradalshrepps, segir í samtali við vb.is að ekkert svigrúm sé til þess að lækka útsvarið þótt það verði heimilað. „Jöfnunarsjóðurinn er hættur að veita framlag vegna reksturs grunnskóla, sem er brot á samningi ríkis og sveitarfélaga sem gerður var við flutning grunnskólans til sveitarfélaganna. Þeir horfa bara á tekjur sveitarfélagsins á hvern íbúa en ekki gjaldaþörfina. Ríkið ætlaði að gera þetta fyrr, en lög sem veittu ráðherra heimild til að gera þetta voru samþykkt síðasta haust. Það er vonandi að nýr ráðherra snúi þessu við,“ segir Davíð.

Hann segir að útsvarið hafi ekki verið hækkað þrátt fyrir ákvörðun Jöfnunarsjóðs. „Við hækkuðum hins vegar fasteignaskatta út af þessu. Þeir telja miklu meira en útsvarið hjá okkur vegna sumarhúsabyggðarinnar.“

Eydís Þ. Indriðadóttir.
Eydís Þ. Indriðadóttir.

Svipað svar var að fá frá Eydísi Þorbjörgu Indriðadóttur, oddvita Ásahrepps. „Það er ekki svigrúm til að lækka útsvarið hjá okkur miðað við þær fjárhagsáætlanir sem við erum að leggja upp með. Við erum búin að gera áætlun fyrir þetta ár og svo aðra fyrir næstu þrjú árin og miðað við þær er ekki svigrúm til að lækka útsvar, en það getur að sjálfsögðu breyst.“