Strax eftir jólin reynir oft á skilarétt í verslunum því jafnvel þótt reynt sé eftir fremsta megni að velja réttu jólagjafirnar kemur fyrir fólk vilji skipta og skila jólagjöfunum.

Neytendasamtökin minna að þessu tilefni á skilarétt á vef sínum í dag.

„Það er ekkert talað um skilarétt í lögum og strangt til tekið þurfa verslanir ekki að taka aftur við vörum nema þær séu gallaðar,“ segir á vef Neytendasamtakanna en jafnframt er tekið fram að langflestar verslanir skipta þó vörum eða gefa út inneignarnótur en fæstar verslanir endurgreiða vörur.

Þá er tekið fram að verslunum er þó í sjálfsvald sett hversu langan frest þær gefa en algengt er að fólk hafi tvær vikur til að skipta vörum.

„Það er um að gera að spyrja um reglurnar áður en keypt er og tryggja að hægt sé að skila og skipta vörum,“ segir á vef Neytendasamtakanna.

„Oft má sjá skilmála við afgreiðslukassa í verslunum og eitthvað er um að verslanir bjóðist til að setja skilamiða á vörur en á honum kemur fram hvar varan er keypt og hversu langur skilafresturinn er.“

Sjá nánar vef Neytendasamtakanna.