Slitastjórn Glitnis áformar að greiða stöðugleikaframlag í vikunni ef undanþága fæst hjá Seðlabanka Íslands. Þetta segir Steinunn Guðbjartsdóttir, formaður slitastjórnar Glitnis í samtali við RÚV.

Héraðsdómur samþykkti nauðasamning Glitnis þann 8. desember sl. en kærufrestur er nú liðinn. Steinunn segir ekkert því til fyrirstöðu að hefja greiðslur og að hún eigi jafnvel von á að það gerist í þessari viku. Seðlabanki Íslands þurfi þó að veita undanþágu.

Slitastjórn hefur nánast lokið störfum eftir að nauðasamningurinn hafi verið samþykktur af Héraðsdómi, nú sé aðeins eftir að efna nauðasamninginn. Steinunn segir að í framhaldinu verði skipuð ný stjórn yfir Glitni sem verður endurreist sem eignarhaldsfélag.