Engar eignir voru til upp í 2,7 milljarða króna kröfur í þrotabú félagsins Fjallaskarð efh. Félagið hét áður Capital Plaza og átti hlut í fjarskiptafélaginu Tali. Eigandi tals var Jóhann Óli Guðmundsson sem stórtækur var á fjarskiptamarkaði um nokkurra ára skeið.

Félag Jóhanns Óla, Wireless Broadband Systems, keypti snemma árs 2007 allt hlutafé í fyrirtækinu Hive og bættist það við fjarskiptafélögin Atlassíma og eMax. Félögin fjögur voru síðan sameinuð undir merkjum Hive og var markmiðið þá, eins og m.a. kom fram í Viðskiptablaðinu á sínum tíma, að nýtt félag muni einbeita sér að svokallaðri fjórðu kynslóð þráðlausra fjarskipta (4G) þar sem öll þjónusta, svo sem sími, sjónvarp, hvers konar nettengsl og myndveitur (e. Video-on-Demand), er veitt. Tæpu ári síðar var Hive komið með 20% hlutdeild á fjarskiptamarkaði. Í febrúar greindi Viðskiptablaðið svo frá því að Teymi hafi keypt Hive og sameinað það fyrirtækinu SKO.

Upp úr sameinuðu fyrirtæki varð svo til fjarskiptafyrirtækið Tal og átti félag Jóhanns Óla 49% hlut í því á móti Teymi. Samstarfið þar innan dyra gekk hins vegar erfiðlega.

Landsbankinn tók allt yfir

Landsbankinn tók yfir eignarhald á Fjallaskarði haustið 2009 og eignaðist við það tæpan 32% hlut í Tali. Bankinn hafði sömuleiðis tekið Teymi yfir. Úr varð að Auður I fagfjárfestasjóður á vegum Auðar Capital keypti Tal af eigendum fyrirtækisins, þar á meðal hlut Fjallakarðs í júní árið 2010.

Fram kemur í Lögbirtingablaðinu í dag að Fjallaskarð var úrskurðað gjaldþrota í héraðsdómi Reykjavíkur 18. apríl síðastliðinn og lauk skiptum 8. ágúst. Alls námu lýstar kröfur 2.7.07.439.836 krónum.