Gylfi Sigfússon á langan feril að baki hjá Eimskip og hefur verið forstjóri félagsins frá maí 2008. Hann hóf feril sinn í flutningageiranum sem framkvæmdastjóri hjá Tollvörugeymslunni hf. áður en hann hélt til Bandaríkjanna árið 1996. Þar var Gylfi meðal annars yfir rekstri Eimskips í Bandaríkjunum og Kanada þar til hann sneri aftur heim til Íslands árið 2008 og tók við starfi forstjóra. Alls á hann því 26 ára feril að baki í flutningum þar sem hann hefur kynnst öllum hliðum greinarinnar.

Yucaipa góður eigandi

Fjárfestingasjóðurinn Yucaipa er stærsti einstaki eigandi félagsins eftir að hafa eignast stóran hlut í Eimskipum eftir hrun. Hefur sjóðurinn tekið virkan þátt í uppbyggingu og starfsemi félagsins?

„Yucaipa kom að endurreisn félagsins ásamt Gamla Landsbankanum sem var stærsti kröfuhafi félagsins árið 2009. Þeir höfðu þá áhuga á frystigeymslurekstri félagsins í Norður-Ameríku, en sáu síðan áhugaverð tækifæri við að koma að endurreisn Eimskips og lögðu félaginu til það fjármagn sem þurfti til að komast í gegnum erfiðasta tímann. Þeir áttu um 33% í félaginu á árunum 2009 til 2012, en voru beðnir um að minnka hlut sinn fyrir skráningu félagsins árið 2012 í um 25% þar sem óæskilegt þótti að einhver einn hluthafi ætti stærri hlut en 25%. Yucaipa hefur staðið mjög þétt við bakið á okkur öll þessi ár og hvatt okkur áfram til dáða. Helsti fulltrúi þeirra, Richard d‘Abo, hefur átt sæti í stjórn Eimskips sem varaformaður frá 2009 og sem stjórnarformaður frá árinu 2013.“

Hvernig er að hafa fjórðung fyrirtækisins í erlendri eigu?

„Það er gott að hafa kjölfestufjárfesti sem hefur reynslu af rekstri á „logistics“ fyrirtækjum, en fyrir okkur skiptir það í raun ekki máli hvort hluthafar eru innlendir eða erlendir. Ef til vill er gott að hafa erlenda aðila í bland við innlenda sem hafa aðra sýn en við Íslendingar og sér í lagi þar sem félagið er að helmingi háð erlendum tekjum. En það sem mestu skiptir er að í okkar tilfelli hefur þessi stærsti hluthafi félagsins haft mikið fram að færa við uppbyggingu fyrirtækisins frá þeirri erfiðu stöðu sem það var í á fyrstu árunum eftir bankahrunið hér á landi, þegar enginn innlendur að- ili hafði bolmagn eða vilja til að leggja félaginu til fjármagn. Stjórnin öll stendur þétt við bakið á okkur, en hana skipa fulltrúar sem tilnefndir hafa verið af lífeyrissjóðum og öðrum fjárfestingarsjóðum hér á landi og í stjórninni er því góð blanda af hæfu fólki með mikla reynslu úr atvinnulífi og góðan samhljóm.“

Svona sjóðir eru gjarnan ekkert allt of lengi inni i fjárfestingum sínum. Hefur þú hugmynd um hvort Yucaipa ætli að eiga hlut í félaginu áfram?

„Það er ekki mitt að vera með vangaveltur um það hvort þeir séu á leiðinni út í náinni framtíð. Nú við losun fjármagnshafta og í uppgangi í íslensku efnahagslífi er mikill áhugi hjá erlendum sjóðum með nýtt fjármagn að fjárfesta á Íslandi, en flestir eru þeir með stefnu um að vera inni í þrjú til sjö ár. Það getur talist heilbrigð stefna, en auðvitað skiptir máli hvort fyrirtækið er að vaxa að verðmæti, hver arðgreiðslustefna þess er og hverjir vaxtarmöguleikarnir eru. Þetta er ekki eitthvert tímaglas sem menn setja af stað og svo er farið út úr fjárfestingunni eftir að tímaglasið hefur runnið sitt skeið. Verðmæti Yucaipa í Eimskip hefur vaxið um u.þ.b. 40% á þessu ári, en þeir hafa verið í þessu með okkur í sjö ár. Þeir verða að svara fyrir um framhaldið, en ég vona að við fáum að njóta krafta þeirra áfram.“

Nánar er rætt við Gylfa í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .