Skiptum er lokið á þrotabúum tveggja félaga, sem bæði voru í eigu athafnamannsins Sigurðar H. Ólasonar, og námu lýstar kröfur í búin tvö samtals tæpum 1,7 milljörðum króna. Ekkert fékkst upp í kröfur í búin tvö.

Fyrra félagið, Sola Capital ehf., var tekið til skipta 14. mars 2012. Kröfur í búið námu alls. 1.346,1 milljón króna. Síðara félagið, Greipt í stein ehf., var tekið til skipta 7. september 2011. Kröfur í það bú námu alls 345,8 milljónum króna.

Síðasti ársreikningur sem til er fyrir Sola Capital er fyrir árið 2007. Kemur þar fram að félagið átti fjölda fasteigna, m.a. við Bakkabraut, Grettisgötu, Laugaveg, Lækjargötu og Suðurgötu. Bókfært verð fasteignanna, sem voru fimmtán talsins, nam 1,1 milljarði króna í árslok 2007.