Engar eignir fundust upp í næstum 444 milljóna króna kröfur í þrotabú félagsins F3A8 ehf. Félagið hét áður Hængur ehf og var í fullri eigu Benedikts Einarssonar, sonar athafnamannsins Einars Sveinssonar. Félagið átti árið 2008 m.a. hlutabréf í BNT, móðurfélagi N1, sem bókfærð voru á tæpar 253 milljónir króna og hlutabréf í erlendum félögum upp á rúmar átta milljónir. Fjölskylda Benedikts voru helstu stjórnendur og stórir hluthafar BNT. Skuldir félags Benedikts námu á þessum tíma 317 milljónum króna. Þær voru nær allar í erlendum gjaldmiðlum. Félagið tapaði 154 milljónum króna sama ár.

Í lok árs 2011 tapaði Hængur 314 milljónum króna. Félagið átti þá eignir upp á aðeins 4,8 milljónir króna. Á móti námu skuldir 366 milljónum króna. Tekið er fram í ársreikningi að langtímaskuldir félagsins upp á rúmar 360 milljónir króna voru gjaldfallnar.

Fram kemur í Rannsóknarskýrslu Alþingis um fall bankanna að Glitnir hafi lánað Hæng 205 milljónir króna árið 2007. Skuldin stóð í 231 milljón króna ári síðar.

Félagið var úrskurðað gjaldþrota í héraðsdómi Reykjaness 6. mars síðastliðinn og lauk skiptum á þrotabúinum 23. maí síðastliðinn, að því er fram kemur í Lögbirtingablaðinu í dag.