Í fréttatilkynningu á vef fjármálaráðuneytisins kemur fram að á tveimur fundum stýrinefndar ráðuneytisins um samninga við erlenda kröfuhafa hafi láðst að halda fundargerðir um það sem fram fór á fundunum. Þetta hafi gerst vegna þess að ritarar nefndarinnar voru fjarverandi.

Tilkynningin er að öllum líkindum svar við Vigdísi Hauksdóttur, formanni fjárlaganefndar, sem sagði í viðtali við Morgunblaðið að þó nokkrar blaðsíður vantaði í gögn um stofnun nýju bankana í kjölfar hrunsins 2008.

Þá segir einnig í tilkynningu ráðuneytisins að hluta gagnanna sé ráðuneytinu óheimilt að birta, þar eð þau innihalda fjárhagsupplýsingar um kröfuhafa og einstaklinga sem eru málinu tengdir. Því hafi gögnin ekki verið birt á venjulegan máta líkt og önnur gögn.