Þingflokkur Vinstri grænna hefur dregið til baka ósk sína um að fjárlaganefnd sem og efnahagsog skattanefnd Alþingis komi saman snemma í ágúst til að ræða stöðuna í efnahags- og atvinnumálum.

Ögmundur Jónasson, þingflokksformaður Vinstri grænna, segir að sú ósk hafi verið borin fram samhliða óskinni um að Alþingi kæmi saman strax að lokinni verslunarmannahelgi til að ræða efnahagsmál.

Við síðarnefndu óskinni hafi hins vegar ekki orðið. Þar með hafi beiðnin um nefndarfundina fallið um sjálfa sig. Nefndirnar hafi átt að undirbúa þingið.

Pétur H. Blöndal, formaður efnahags- og skattanefndar, segir að hann hafi verið byrjaður að kanna hvort hægt væri að kalla nefndirnar saman, en í ljósi þess að ósk VG hafi verið dregin til baka, hafi hann blásið það af.

Þing kemur því saman 2. september.

Pétur segir almennt um efnahagsmál að það sé erfitt að meta hvort það sé þensla eða kreppa vegna mikilla opinberra framkvæmda á árinu.

„Aukin verðbólga og verðfall hlutabréfa kemur þó óneitanlega illa við marga,“ segir hann. Allar medalíur hafi á hinn bóginn tvær hliðar. Lækkun íbúðaverðs sé slæm fyrir þá sem nýbúnir séu að kaupa með miklum lánum en góð fyrir þá sem hyggist kaupa. Sömu sögu sé að segja af vöxtum. Þeir séu slæmir fyrir þá sem skulda en góðir fyrir þá sem spara.