Eins og sagt hefur verið frá í Viðskiptablaðinu hyggst Straumur-Burðarás Fjárfestingabanki, færa bókhald sitt og ársreikninga í evrum frá og með áramótum, fyrstur íslenskra banka. Bankinn hefur samkvæmt heimildum blaðsins fengið heimild frá Ársreikningaskrá til breytinganna. Í ákvörðun Straums - Burðaráss felst jafnframt að eigið fé bankans verður fært yfir í evrur.

Davíð Oddsson seðlabankastjóri sagði í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins í gær að ákvörðun Straums-Burðaráss væri óheppileg og ekki nægilega vel grunduð. Ennfremur sagði hann að heimildir til að skrá bókhald sitt í erlendum gjaldmiðlum hafi ekki verið hugsað til að ná til fjármálafyrirtækja og að nauðsynlegt sé að skýrt kveði á um það í lögum. Ekki náðist í Davíð vegna málsins í gær.

Árni M. Mathiesen, fjármálaráðherra kvaðst ekki hafa farið nægilega vel yfir málið til að geta lagt mat á hvort ákvörðunin væri óheppileg né hvort til greina kæmi að breyta löggjöf sem að málinu lýtur.

Gjaldeyrisjafnaðarreglur Seðlabankans kveða á um að heildargjaldeyrisjöfnuður stofnunar skuli hvorki vera jákvæður né neikvæður umfram 30% af stofnfé stofnunarinnar samkvæmt síðasta birta uppgjöri. Í því felst að eigið fé stofnunar sem reglurnar taka til, til að mynda bankastofnun, má ekki fara yfir 30%.

Á þessari reglu er undantekning sem veitir heimild til þess að hafa sérstakan jákvæðan gjaldeyrisjöfnuð utan við heildargjaldeyrisjöfnuð til varnar gengisáhrifum á eignarfjárhlutfall. Þetta þýðir í raun að stofnun er heimilt að sækja um að hafa eigið fé umfram 30% mörkin í því skyni að verja sig fyrir gengissveiflum. Skilyrði fyrir heimildinni er að stofnunin leggi fram greinargerð þar sem fram koma forsendur og útreikningar til ákvörðunar á stærð gjaldeyrisjafnaðarins.

Eins og fram kom í Viðskiptablaðinu síðastliðinn miðvikudag segir Friðrik Jóhannsson, forstjóri Straums-Burðaráss, að fjárfestingabankinn hafi fengið sérstaka heimild frá Seðlabankanum til að fara yfir þessi mörk og að bankinn hafi nýtt sér þessa heimild enda sé eigið fé hans í erlendum gjaldeyri vel yfir þeim mörkum eða ríflega helmingur. Því virðist ekkert vera því til fyrirstöðu að bankinn færi eigið fé sitt í evrum eins og fyrirhugað er.

Á bilinu 150 til 160 fyrirtæki hafa fengið heimild frá Ársreikningaskrá til að færa bókhald sitt í erlendum gjaldmiðli, samkvæmt upplýsingum frá skránni. Af þeim 25 félögum sem skráð eru á aðallista Kauphallarinnar færa 12 bókhald sitt í erlendum gjaldmiðli eða hafa tilkynnt um að þau hyggist gera það.