Alþjóðlega kvikmyndahátíðin Reykjavík International Film Festival (RIFF) hefst eftir viku en það verður í ellefta skipti sem hún verður haldin. Gengið hefur á ýmsu fyrir hátíðarhöldin en ljóst var um síðustu áramót að Reykjavíkurborg myndi ekki styðja við hátíðina þetta árið. Rúm þrjátíu prósent af tekjum kvikmyndahátíðarinnar, sem veltir um sextíu milljónum króna á ári hverju, koma frá opinberum styrkjum og var því ákvörðun borgarinnar þungur biti í rekstri RIFF.

Framkvæmdastjóri hátíðarinnar, Hrönn Marínósdóttir, stofnaði hana árið 2004 út frá MBA verkefni sem hún vann hjá Háskólanum í Reykjavík. Fyrsta hátíðin sýndi aðeins sextán kvikmyndir en í næstu viku geta kvikmyndunnendur séð yfir hundrað kvikmyndir hvaðanæva að úr heiminum og notið fjölmargra viðburða sem tengdir eru henni.

„Ég ætlaði ekkert að verða hátíðarstjórnandi eða að stofna alþjóðlega kvikmyndahátíð,“ segir Hrönn. „Þetta er eins og svo margt annað að eitt leiddi af öðru. Þegar ég ákvað að hætta í blaðamennsku á sínum tíma fannst mér MBA nám kjörin leið til að finna eitthvað nýtt. Þannig að ég notaði það nám til þess að stofna alþjóðlega kvikmyndahátíð. Bæði notaði ég kúrsana mína og svo fór síðasta önnin í náminu í alfarið í að gera stefnumótun fyrir hátíðina. Verkefnið snerist um að svara spurningunni um hvort það væri mögulegt að reka alþjóðlega kvikmyndahátíð í Reykjavík. Hvort það væru samfélagslegar og markaðslegar forsendur fyrir því. Ég komst að því að svo væri og nokkrum mánuðum síðar hélt ég fyrstu hátíðina.“

Vildi breyta landslagi kvikmyndamenningarinnar

Hún var þá töluvert smærri en hún er í dag. Hafðir þú séð fyrir þér að hún myndi verða svona lífseig?

„Hugmyndin í upphafi var fyrst og fremst að bæta kvikmyndamenninguna. Að breyta landslaginu. Hér á landi er markaðurinn frekar einsleitur, eins og víða annars staðar, en kannski sérstaklega hér vegna þess að kvikmyndahúsin eru í eigu dreifingaraðilanna, sem tíðkast sjaldnar í nágrannalöndum okkar. Ég held að það séu fá lönd í heiminum sem leyfa það. Það gerir það að verkum að úrval kvikmynda verður aðeins minna fyrir vikið. Eftir að hafa búið í útlöndum og farið á kvikmyndahátíðir eins og t.d. í Berlín þá uppgötvaði ég að það væru svo margar myndir í heiminum sem við fengjum aldrei að sjá. Það var dálítið útgangspunkturinn, að breikka áhorfendahópinn og sýna fólki að það er svo mikið til af kvikmyndum sem eru gerðar um allan heim. Síðan varð þetta tækifæri til að koma Íslandi á kvikmyndahátíðarkortið. Við fundum strax fyrir því að það var mikill áhugi fyrir hátíðinni og í upphafi fórum við þá leið að ráða til okkar erlent fagfólk með þekkingu og tengsl. Það stendur ekki til að breyta hátíðinni í hátíð sem myndi svipa til Cannes eða Berlinale,heldur viljum við einbeita okkur að því að gera hana að vandaðri hátíð. Hátíð sem allir kvikmyndagerðarmenn vilja koma myndunum sínum á.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .