Engin ítarleg greining liggur fyrir á fjárþörf vegna uppbyggingu og viðhalds ferðamannastaða. Það liggur ekki einu sinni ljóst fyrir hvaða staðir teljast ferðamannastaðir. Þetta kemur fram í greiningu sem ráðgjafafyrirtækið Alta vann að beiðni Ferðamálastofu til að varpa ljósi á það hvernig afla mætti tekna til að fjármagna uppbyggingu og viðhald ferðamannastaða.

Í skýrslunni segir jafnframt að í almennri umræðu um gjaldtöku vegna uppbyggingar og viðhalds ferðamannastaða hafa yfirleitt heyrst upphæðir á bilinu 500 - 1.500 milljónir. Hærri upphæðir hafi heyrst, t.d. í nýlegri umfjöllun Arion banka. Þessar upphæðir séu  ágiskanir um það hve mikilla tekna mætti afla en ekki um fjárþörfina.

Í skýrslunni segir að fyrir liggi að almennar skatttekjur vegna heimsókna ferðamanna sé líklega um 15 - 20 milljarðar. Nú þegar sé háum fjárhæðum varið af skattfé til reksturs á ferðamannastöðum, t.d. í þjóðgörðum og á verndarsvæðum.

Í skýrslunni eru nefndar þrjár mögulegar leiðir til þess fyrir gjaldtöku ferðamanna. Það er álag á aðra þjónustu, t.d. gistingu eða flugfar. Í öðru lagi aðgangseyrir að sérstökum svæðum, svo sem þjóðgörðum og í þriðja lagi landamæragjöld.

Skýrslan hefur nú verið kynnt fyrir ráðherra ferðamála, Ragnheiði Elínu Árnadóttur og mun ráðuneytið nýta skýrsluna í áframhaldandi vinnu við útfærslu á fjármögnunarleiðum til framtíðaruppbyggingar.