Ögmundur Jónasson heilbrigðisráðherra gagnrýnir harðlega áherslu aðila vinnumarkaðarins á nýjan Starfsendurhæfingarsjóð atvinnulífsins í stöðugleikasáttmála sem þeir og stjórnvöld komu sér saman um í júní.

Samkvæmt sáttmálanum á ríkissjóður að leggja sjóðnum til verulegar upphæðir á næsta ári.

„Á sama tíma og við erum að skera niður í heilbrigðisþjónustunni – skera niður  við Reykjalund, Grensás og til sjúkraþjálfara - erum við að þenja út úrræði af þessu tagi,“ segir hann í ítarlegu viðtali við Viðskiptablaðið. Ögmundur er í leyfi sem formaður BSRB.

„Ég er ekki viss um að menn átti sig á að hér stendur til að byggja upp sjóð sem fær 0,39% af launasummu landsmanna og  fljótlega verður stærri en öll heilsugæslan á höfuðborgarsvæðinu.“

Ber að verja hagsmuni almennings

Hann segir að hugmyndafræðin á bakvið starfsendurhæfingarsjóðinn sé góð en segist þó þeirrar skoðunar að sjóðir sem þessir eigi í takmörkuðum mæli að vera vinnumarkaðstengt úrræði, eins og hann orðar það, heldur eigi að setja þá inn í almannaþjónustuna.

„Ég hefði því kosið að verkalýðshreyfingin beindi sjónum sínum ekki bara að sjóðum sem tengjast henni heldur heilbrigðiskerfinu almennt. Flestir þeir sem njóta almannaþjónustu heilbrigðiskerfisins bera uppi verkalýðshreyfinguna og henni ber að verja hagsmuni almennings í þessu sambandi. Eða til dæmis að berjast gegn markaðslausnum sem oftast reynast miklu dýrari, að minnsta kosti fyrir verkafólk sem veikist.“

Í ítarlegu viðtali við Ögmund Jónasson í Viðskiptablaðinu í dag ræðir hann meðal annars um niðurskurðinn framundan í heilbrigðiskerfinu.