„Það er ekki sjálfgefið að stjórnvöld, ríkisstjórnin eða Seðlabankinn þurfi að semja við kröfuhafa,“ segir raunvísindamaðurinn Sveinn Valfells. Hann mælir fremur með því að sett verði lög sem tryggi almannahagsmuni. Ósáttir kröfuhafar geti látið reyna á gildi þeirra fyrir dómsstólum.

Rætt var um nauðasamningana og skuldastöðu þjóðarbúsins á fundi Félags viðskiptafræðinga og hagfræðinga fyrir helgi undir yfirskriftinni Ísland á gjalddaga og hugsanleg neikvæð áhrif þeirra á fjármálastöðugleika efnahagslífsins. Á fundinum var ítarlega rætt um þátt kröfuhafa þrotabúanna, sem geta haft mikið að segja um þróun mála. M.a. lagði Illugi Gunnarsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, að greiða kröfuhöfunum út í krónum á ákveðnu gengi. Hann sagði kröfuhafana að mestu vogunarsjóði sem hafi keypt skuldir gömlu bankanna á hrakvirði og hafi hagnast vel á viðskiptunum. Óþarft sé að bæta í sjóði þeirra með hagstæðari samningum fyrir þá en ella. Illugi lét þau fleygu orð falla á fundinum að starfsmenn vogunarsjóðanna hafi komið hingað í einkaþotum og fari héðan í einkaþotum, eina vafamálið sé hvort þeir skáli á heimleiðinni eður ei.

Þá lagði Heiðar Már Guðjónsson fjárfestir til að stjórnvöld fái alþjóðlega lögfræðinga til að semja við erlenda vogunarsjóði.

Sveinn Valfells segist í samtali við vb.is styðja samningaleiðina verði hún ofan á. Hann segir hins vegar að ríkissstjórnin, embættismenn og aðrir fulltrúar almennings eigi öðru fremur að reyna að lágmarka skaðann af bankahruninu, á þjóðina og sjálfbæra hluta atvinnulífsins, þ.e. sem ekki bólgnaði út í ofurskuldsetningu og skilar afgangi af rekstri með útflutningi eða þjónustu innanlands.

„Þetta eru kröfur sem upprunalega var stofnað til af föllnum einkabönkum. Hvers vegna ætti ríkið að taka það á sig, hvort sem er beint eða í gegnum Seðlabankann?“ spyr Sveinn.