Grundvöllur fiskveiðistjórnunar verður aflamarkskerfi og tekið verður mið af tillögu sáttanefndar um að samningsbundin réttindi um nýtingu aflaheimilda taki við af varanlegri úthlutun aflamarks.

Kemur þetta m.a. fram í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, sem formenn flokkanna, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Bjarni Benediktsson eru að kynna á blaðamannafundi á Laugarvatni. Samningarnir eigi svo að fela í sér rétt til endurnýjunar réttindanna að uppfyltum skilyrðum sem samningarnir kveði á um.

Lög um veiðigjald verða endurskoðuð. Almennt gjald skal endurspegla afkomu útgerðarinnar í heild en sérstakt gjald taka sem mest mið af afkomu einstakra fyrirtækja.

„Stuðlað verður að uppbyggingu sjávarklasans með því að tryggja greininni gott starfsumhverfi, innleiða jákvæða hvata í regluverk og ýta undir vöruþróun og markaðssókn.“