„Þetta er allt gert í því augnamiði að framfylgja þeirri stefnu okkar að geta veitt okkar kjarnaviðskiptavinum sérhæfða og góða þjónustu. Þá höfum við ekki svigrúm til að þjónusta nema ákveðinn fjölda,“ segir Sigurður Atli Jónsson, forstjóri MP banka, um þá ákvörðun að innheimta 60 þúsund króna viðskiptagjald af þeim viðskiptavinum bankans þar sem umfang viðskipta nær ekki tveimur milljónum króna.

Ekki mælanleg áhrif

Sigurður Atli vill ekki gefa upp ná- kvæmlega hve stór hluti viðskiptavina bankans fellur undir þessar breytingar en hann segir þetta ekki hafa mælanleg áhrif á efnahag bankans.

„Það má segja að varðandi stærð og fjölda að þegar við erum að takmarka fjölda viðskiptavina með þessum hætti þá eru það ekki takmarkanir sem hafa nein mælanleg áhrif á efnahag bankans. Þetta hefur ekki marktæk áhrif á innlán eða útlán bankans. Þetta er fyrst og fremst fjöldi viðskiptavina og sá kostnaður sem fylgir því að vera með viðskiptavini og sá kostnaður hefur farið hækkandi á síðustu árum með auknum kröfum og eftirliti,“ segir Sigurður Atli.