Frá áramótum hefur lögregla höfuðborgarsvæðisins verið kölluð til í u.þ.b. 7 þúsund tilfella vegna umferðaróhappa sem hefði mátt ganga frá í hendur tryggingarfélaga án afskipta lögreglu. Ökumenn hefðu aðeins þurft að útfylla tjónatilkynningu sem á að vera í öllum bílum. Lögregla höfuðborgarsvæðisins í samstarfi við tryggingarfélögin hafa sett af stað sérstakt átak til að hvetja ökumenn til að nota tjónatilkynningarnar. Ef ökumenn tileinka sér þetta má spara lögreglu óþarfa fyrirhöfn og tíma sem hún getur þá notað frekar til aukins eftirlits og með því stuðlað að fækkun umferðarslysa.

Ef ekki verður slys á fólki við árekstur eða óhappið hefur ekki alvarleg áhrif á flæði umferðar þarf ekki að kalla lögreglu til. Það borgar sig að vera með tjónatilkynningar í bílnum ef óhapp á sér stað. Þeir sem eru ekki með eyðublöð tjónatilkynninga í bílum sínum geta nálgast þau t.d. á bensínstöðvum, hjá bílaumboðum og skoðunarstöðvum. Ef óhapp á sér stað við Verslunarmiðstöðvar líkt og Kringluna eða Smáralind er hægt að leita til öryggisvarða miðstöðvarinnar en þeir eiga að vera með eintök af tjónatilkynningum. Umferðarstofa hvetur ökumenn til að nota tjónatilkynningarnar í þeim tilfellum sem við á í stað þess að kallað sé á lögreglu.