Að sögn Árna Mathiesen fjármálaráðherra gefur endurmat matsfyrirtækisins Moodys á lánshæfi íslensku bankanna ekki tilefni til neinna viðbragða af hálfu stjórnvalda.

Árni benti á að breytt viðmið Moodys byggðu á skoðun þeirra á bankastarfsemi í Evrópu síðustu 50 árin. Þannig mætu þeir annað og meira en fjárhagslegan styrk bankanna einn og sér. Þetta leiddi af sér að bankar sem væru ekki hlutfallslega stórir í hagkerfum einstakra landa væru að fá lægri einkunn en sem nemur fjárhagslegum styrk þeirra.

"Ég held að þetta hafi ekkert með það að gera hvað seðlabankarnir eða ríkisstjórnirnar hafa sagt um þessi mál eða að staða ríkissjóðanna sé metin. Ég veit ekki til þess að það hafi verið nokkur þrýstingur frá einum né neinum og því algerlega þeirra mál. Ég veit ekki til þess heldur að nokkur seðlabanki eða ríkisstjórn hafi gefið út nokkurt álit á þessari aðferðafræði," sagði Árni og sagðist ekki sjá að það væri á nokkurn hátt skynsamlegt fyrir hann að gera slíkt.