Á fyrstu sjö mánuðum ársins 2013 seldust 5.439 nýir fólksbílar. Það er aðeins 0,2% minna en á sama tíma 2012. Benedikt Eyjólfsson, í Bílabúð Benna, segir að aukningin til almennings sé þó 8,2% milli ára, og hefur hlutdeild bílaleiganna því minnkað milli ára. „Auðvitað ættu að seljast hér tíu til tólf þúsund bílar á ári. Bílaflotinn er of gamall, eða tólf ára að meðaltali. Í því samhengi skiptir mestu máli að nýir bílar eru miklu öruggari, menga minna og eyða minna eldsneyti.“

Benedikt sér ekki ástæðu til að leggjast í þunglyndi yfir bílasölu hérlendis, en umræðan hefur oft verið neikvæð um þróunina. Hann viðurkennir þó að sjálfur hafi hann búist við heldur meiri þrótti í bílasölunni í ár en raunin hefur verið til þessa. Þrátt fyrir það er hann bjartsýnn á næstu ár í bílabransanum, þar sem bílarnir verði sífellt hagstæðari, öruggari og betri. Að mati Benedikts er galið að tollar á stærri jeppa séu aftur komnir upp í 65%. „Íslendingar þurfa jeppa og jepplinga. Landið er strjálbýlt, þótt hér hafi komið nokkrir snjóléttir vetur. Margir eiga stórar fjölskyldur og óskiljanlegt hvers vegna mönnum sé hegnt fyrir það með skattlagningu.“

Annað vandamál sem kemur við bílageirann er svört atvinnustarfsemi. „Hún er gífurlega viðamikil í bílaviðgerðum. Bílar í dag eru orðnir svo flóknir. Menn eru jafnvel að eiga við öryggisbúnað og það getur verið stórhættulegt, bæði hvað varðar öryggi, tryggingar og fleira,“ segir hann en tekur fram að vissulega sé að finna marga færa bifvélavirkja í „skúrunum“.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.